Thursday, October 16, 2008

Daphne Hampson heldur fyrirlestur í HÍ

Er nóg að klæða Guð í kjól?


Er nóg að klæða Guð í kjól til að leysa vanda kristninnar á okkar tímum?

Aldeilis ekki, segir Daphne Hampson, skeleggur og umdeildur breskur guðfræðingur og trúarheimspekingur. Að dómi Hampson er viðleitni femínískra guðfræðinga til þess að kvengera guð engin leið út úr ógöngum kristninnar í nútímasamfélagi. Þess í stað kallar Hampson eftir róttækri endurskoðun á guðsskilningi og tengslum okkar við guð. Hún talar gegn trúleysi en telur jafnframt að eina leiðin til að endurheimta guðstrú sem stenst kröfur nútímans sé slík róttæk endurskoðun trúarinnar. Hampson lýsir afstöðu sinni sem "póst-kristinni" og meinar með því að hún fjallar um trú og guð í ljósi þeirrar hefðar sem hún kemur úr en hafnar jafnframt hefðbundnum goðsögnum og kennisetningum kristninnar. Athugasemdir Hampson við kristindóminn eru bæði þekkingarfræðilegar og siðfræðilegar. Hún fullyrðir að kristindómurinn sé ekki sannur vegna þess að það sé ekki stætt á að segja að hann opinberi sannleikann. Einnig telur Hampson að karllægar forsendur og einsleit sýn kristindómsins á konur geri að verkum að hann afskræmir tengslin á milli kynjanna og gengur gegn þroska mannsins, sem Hampson telur mikilvægasta verkefni hverrar manneskju. Skrif Hampson hafa á undanförnum áratugum vakið mikla athygli víða um lönd.

Daphne Hampson mun halda tvo fyrirlestra við Háskóla Íslands í næstu viku. Fyrra erindið verður flutt miðvikudaginn 22. október, kl. 12, í stofu 229 í aðalbyggingu og fjallar um heimspeki Kierkegaards. Síðara erindið verður haldið á vegum Heimspekistofnunar og Rannsóknastofu í kynjafræðum fimmtudaginn 23. október kl. 16, Lögbergi 101, og fjallar um póst-kristilega andlega afstöðu. Á vefritinu kistan.is er að finna athyglisvert viðtal við Daphne Hampson.

Femínistafélag Háskóla Íslands vill endilega hvetja alla til að mæta á þennan fyrirlestur og taka þátt í skemmtilegum umræðum.

Bestu kveðjur
Stjórn Femínistafélags HÍ